24. mai. 2016

Lög um uppfinningar starfsmanna

Sigurður Ingvarsson, ráðgjafi á einkaleyfasviði og meðeigandi, skrifar:

Hver á rétt á að tryggja sér eignarhald á hugmyndum eða uppfinningum með því að sækja um einkaleyfi á þeim? Hér geta verið miklir hagsmunir í húfi og einkaleyfi fyrir tiltekinni uppfinningu getur...

Sigurður Ingvarsson, ráðgjafi á einkaleyfasviði og meðeigandi, skrifar:

Hver á rétt á að tryggja sér eignarhald á hugmyndum eða uppfinningum með því að sækja um einkaleyfi á þeim? Hér geta verið miklir hagsmunir í húfi og einkaleyfi fyrir tiltekinni uppfinningu getur skilað gríðarlegum hagnaði ef rétt er staðið að því að tryggja vernd á henni.

Í fyrstu grein laga um einkaleyfi á Íslandi segir í fyrstu málsgrein; „Rétt til að fá einkaleyfi fyrir uppfinningu samkvæmt lögum þessum hefur uppfinningamaður eða sá sem hefur öðlast rétt hans“. Þetta þýðir með öðrum orðum að enda þótt uppfinningamaður sé einn eða fleiri einstaklingur, að fyrirtæki, háskóli eða opinber stofnun getur í raun öðlast rétt til þess að sækja um einkaleyfi á uppfinningu. Það gefur auga leið að einstaklingur sem er sjálfstætt starfandi getur sótt um einkaleyfi fyrir sinni uppfinningu, hvort heldur er í sínu nafni eða í nafni fyrirtækis með því að framselja uppfinninguna fyrirtækinu. En hvaða reglur gilda þá um einstaklinga sem eru starfsmenn hjá einkafyrirtækjum eða opinberum stofnunum?

Lög um uppfinningar starfsmanna tóku gildi 1. janúar 2005 og taka til tæknilegra uppfinninga samkvæmt einkaleyfalögum nr. 17/1991, en ekki hönnunar, höfundaréttar, tölvuforrita eða viðskiptaaðferða. Tilgangurinn með þessari lagasetningu var að setja réttarreglur um uppfinningar starfsmanna í anda þess sem gildir á Norðurlöndunum, þar sem bæði er tekið mið af hagsmunum starfsmannsins og atvinnurekandans.

Lögin kveða á um að aðilar þurfi ekki að semja sérstaklega um öll þau atriði sem lúta að rétti starfsmanns til uppfinninga sem hann kann að koma með í ráðningasamningi og umbun vegna þátttöku hans í uppfinningum gerðum á samningstímanum, þar sem fyrirtækið á í raun sjálfkrafa rétt á uppfinningunni, sé hún á starfssviði atvinnurekandans. Í ljósi þessa er því mikilvægt að hafa í huga að lögin um uppfinningar starfsmanna eru almennt frávíkjanleg, en það er gert með samningum á milli atvinnurekanda og starfsmanns eða jafnvel með kjarasamningum. Undantekningar eru þó nokkur ófrávíkjanleg ákvæði, sem getið verður um hér á eftir.

Réttur starfsmannsins er hér skilgreindur út frá einkaleyfalögunum, þar sem kveður á um að starfsmaðurinn eigi rétt til uppfinningar sem hann kemur fram með. Atvinnurekandinn getur hins vegar, á grundvelli 4. gr. laga um uppfinningar starfsmanna, krafist framsals á réttinum þegar uppfinningin er á starfssviði atvinnurekandans. Það sama á við þó svo að uppfinningin sé ekki á starfssviði atvinnurekandans ef hann hefur falið starfsmanninum slíkt verkefni. Hér eru hagsmunir atvinnurekandans tryggðir, þar sem hann ber kostnað af launum og starfsumgjörð uppfinningamannsins, auk þess sem atvinnurekandi á oft þátt í að skilgreina vandamál sem þarf að leysa. Mörkin um hver er raunverulegur uppfinningamaður og hver ekki er þó ekki umfjöllunarefni þessa pistils, en þau verða æ óskýrari í nútímasamfélagi stórfyrirtækja og upplýsingaflæðis.

Hafi starfsmaður gert uppgötvun sem hægt er að sækja um einkaleyfi fyrir, þá ber starfsmanninum að tilkynna atvinnurekandanum það umbúðalaust, rétt og skýrt og með sannanlegum hætti. Atvinnurekandinn hefur þá þriggja mánaða frest til þess að meta uppfinninguna og taka ákvörðun um hvort hann vilji hagnýta hana. Á meðan á þessum „biðtíma“ stendur hvílir þagnarskylda á starfsmanninum og er honum með engum hætti leyfilegt að birta eða fjalla um uppfinninguna á nokkurn hátt eða hagnýta hana í þágu annara en atvinnurekandans. Þetta ákvæði skiptir miklu máli í háskóla- og vísindasamfélaginu, þar sem tvö sjónarmið takast á. Annars vegar er það kappsmál vísindamannsins að vera fyrstur til að birta uppgötvanir sínar, en á sviðum þar sem þróun er ör og samkeppni mikil geta dagar og vikur skipt máli um hver er fyrstur að birta sína uppgötvun. Hins vegar er það sjónarmið atvinnurekandans og réttur hans að sækja um einkaleyfi á uppfinningum starfsmanna, en birting á uppfinningu kemur í veg fyrir að hægt sé að sækja um einkaleyfi vegna kröfu um nýnæmi á einkaleyfishæfum uppfinningum. Það skiptir þó máli að hafa í huga að starfsmanni er heimilt að leggja inn umsókn um einkaleyfi áður en biðtímanum lýkur, en þá ber honum að tilkynna atvinnurekanda um slíkt. Þetta ákvæði lagana er ófrávíkjanlegt.

Ef atvinnurekandinn öðlast rétt til uppfinningarinnar með framsali, hvort heldur er samkvæmt fjórðu grein laganna eða með annars konar samningi, þá á starfsmaður rétt á „sanngjörnu endurgjaldi“. Mat á sanngjörnu endurgjaldi er skv. lögunum háð nokkrum skilyrðum. Taka þarf tillit til verðmætis uppfinningarinnar, mikilvægi hennar fyrir starfsemi atvinnurekandans, ráðningakjara starfsmanns og hlutdeildar starfsmannsins í uppfinningunni. Þetta mat getur að mörgu leyti verið flókið og vandasamt. Áætlað er að fjalla nánar um þetta mikilvæga atriði hér á síðunni á komandi vikum.

Lög um uppfinningar starfsmanna taka einnig á starfslokum og hvenær uppfinning fyrrum starfsmanns telst hans eigin eða eign fyrrum atvinnurekanda. Samkvæmt lögunum á fyrrum atvinnurekandi rétt til framsals uppfinningar fyrrum starfsmanns ef hún er gerð á innan við sex mánuðum frá starfslokum og ef uppfinningin er á starfssviði atvinnurekandans eða tengist verkefnum sem fyrrum starfsmaður vann fyrir hann. Það er ekki heimilt með samningum að framlengja þetta tímabil umfram sex mánuði og er þetta annað ákvæði þessara laga sem er ófrávíkjanlegt.


Ljóst er af ofangreindu að bæði starfsmenn og atvinnurekendur ættu að vera vel meðvitaðir um réttindi sín og skyldur þegar kemur að uppfinningum og huga vel að þessum málum þegar nýjar uppfinningar líta dagsins ljós. Það er hagur allra að búa vel um hagsmuni beggja aðila.

 

Meira
20. mai. 2016

Eru hugverkaréttindi virðingar verð?

Ásdís Magnúsdóttir, lögfræðingur, ráðgjafi á vörumerkjasviði og meðeigandi, skrifar:

Hugverkaréttindi eru okkur hugleikin hjá Árnason Faktor enda okkar sérsvið. Við sérhæfum okkur í að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga, innlenda sem erlenda, að vernda hugverk sín, ná utan um það sem hægt...

Ásdís Magnúsdóttir, lögfræðingur, ráðgjafi á vörumerkjasviði og meðeigandi, skrifar:

Hugverkaréttindi eru okkur hugleikin hjá Árnason Faktor enda okkar sérsvið. Við sérhæfum okkur í að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga, innlenda sem erlenda, að vernda hugverk sín, ná utan um það sem hægt er að vernda og búa svo til formlega rammann utan um þá vernd eins og best verður á kosið hverju sinni. 

Æ oftar heyrast sjónarmið þess efnis að hugverkaréttindi séu mörgum til ama. Að það sé ekki mikilvægt að virða hugverkaréttindi. Þau séu einungis til þess fallin að tryggja stórum fyrirtækjum tekjur langt umfram það sem réttmæt getur talist. Réttindin séu of umfangsmikil og heftandi fyrir aðra aðila. Taka ber slíka umræðu alvarlega. Það er ljóst að allir þeir sem á þessu sviði starfa og koma að mótun reglna um hugverkaréttindi þurfa sífellt að vera vakandi fyrir því hvert stefnt er og skoða kosti og galla kerfisins á hverjum tíma.

Að sama skapi er það oft veruleikinn að gagnrýni á kerfið er á misskilningi byggð. Einblínt er á þær takmarkanir sem hugverkaréttindi setja aðilum algjörlega óháð því hvaða kosti slík réttindi geta haft í för með sér fyrir eigendur þeirra og samfélagið í heild.

Vernd hugverka á sér langa sögu og hefur það verið manninum hugleikið að tryggja eignarhald einstaklinga á afrakstri hugans á sama hátt og eignarhald á áþreifanlegum hlutum. Til eru merki um slíka vernd frá örófi alda en segja má að raunveruleg útbreiðsla hafi ekki hafist fyrr en um miðja 19. öld. Með iðnbyltingunni, möguleikanum á fjöldaframleiðslu og tækni henni tengd, varð þörfin fyrir verndina fyrst áþreifanleg. Fram að því var hættan á „stuldi“ hugverka óveruleg. Möguleikinn á einfaldri afritun, fjölföldun og dreifingu var einfaldlega ekki til staðar.

Við þróun og mótun verndar hugverka má segja að togist á ólíkir hagsmunir: hagsmunir þess sem skapar hugverkið til að eiga afrakstur vinnu sinnar og svo hagsmunir samfélagsins af því að fá að nýta þá þekkingu sem fyrirfinnst og er okkur öllum aðgengileg. Hugverk eru einmitt þeim sérstaka eiginleika gædd að hægt er að nýta þau á mörgum stöðum samtímis, víðs vegar um heiminn. Nýting eins aðila á hugverkinu takmarkar í raun ekki aðgang annarra að viðkomandi verki eða afnot þess. Þetta skilur þessi verk frá þeim áþreifanlegu. Þetta er líka ástæðan fyrir því að það virðist mörgum auðveldara að „réttlæta“ það að „nýta“ slíkar eignir án heimilda.

Tekið er tillit til þessa sérstaka eiginleika hugverka í reglum á sviðinu. Reglurnar tryggja eigandanum annars vegar úrræði til að standa vörð um eign sína og á þeim sviðum sem slíkt er æskilegt, almannahagsmuna vegna, eru þau úrræði einungis tímabundin. Eftir það er það tryggt að allir megi nýta viðkomandi hugverk. Hins vegar, með veitingu skráðra hugverkaréttinda, er búið að gera opinberar allar upplýsingar um þau verk og þar með „kenna“ samfélaginu í hverju, t.d. tæknin, er fólgin. Verðmætin í því fyrir samfélagið geta verið ómetanleg.

Þau tvö svið hugverkaréttinda sem eru fyrirferðarmest á sviði iðnaðar eru einkaleyfavernd annars vegar og vörumerkjavernd hins vegar. Ef þessi ólíku form verndar eru skoðuð nánar má sjá hvernig reglurnar eru mótaðar með hagsmuni eigenda réttindanna annars vegar að leiðarljósi og svo almannahagsmuni hins vegar, á mjög ólíkan hátt þó. Hvað vörumerkin varðar eru þau skilyrði sett fyrir vernd að þitt vörumerki hindri á engan hátt aðra aðila til að vera í eðlilegri samkeppni. Segja má að útgangspunkturinn sé sá að vörumerki eigi að auðvelda samkeppni en einkaréttur fæst ekki á „merki“ sem nauðsynlegt er talið að eigi að vera laust til afnota fyrir alla á viðkomandi markaði. Þá er gengið út frá því að ekki fáist einkaréttur á útliti vöru sem vörumerki svo dæmi sé tekið ef útlitið er í raun „nauðsynlegt“ hvað virkni vörunnar varðar. Annað gæti leitt af sér óeðlilega hindrun á samkeppni. Að öllum skilyrðum uppfylltum er aftur á móti hægt að fá vernd á vörumerki eins lengi og því er viðhaldið, enda verður slíkt að teljast ekki síður mikilvægt fyrir neytendur en eigendur merkjanna. Þeir verða jú að geta treyst því að tölva merkt APPLE sé frá þeim framleiðanda en ekki öðrum aðila.

Einkaleyfin eru aftur á móti í öllum tilfellum tímabundin réttindi því að þau eru í eðli sínu takmarkandi fyrir samkeppni. Ákveðin tækni getur verið vernduð með einkaleyfi sem hefur það í för með sér að aðrir en einkaleyfishafi mega ekki nota þá tækni nema með hans samþykki. Það sem samfélagið fær „í staðinn“ eru upplýsingar. Við föllumst ekki á að veita einkaleyfi nema sá sem sækir um einkaleyfið útlisti nákvæmlega í skjölum sem gerð verða opinber út á hvað tæknin gengur. Markmiðið er þá ekki síður að fá nýja tækni upp á yfirborðið til hagsbóta fyrir okkur öll en að verðlauna þann sem einkaleyfið hlýtur.

Í þessu er ekkert fullkomið og mikilvægt að horfa á það lagaumhverfi sem við búum við gagnrýnum augum á hverjum tíma. Það er þó ljóst að inn í þau kerfi sem til staðar eru, eru ávallt settar takmarkanir með það að leiðarljósi að kerfið sé samfélaginu til góða í heild sinni.

 

Meira
02. mai. 2016

Útlit APPLE búðanna - skrásett myndmerki

María Kristín Gunnarsdóttir, ráðgjafi á vörumerkjasviði, skrifar: 

Vörumerkjaskráningum er hægt að skipta í þrjá flokka – orðmerki, orð- og myndmerki og myndmerki, en undir myndmerki falla merki án nokkurra stafa eða orða. Sem dæmi um myndmerki má nefna eplið frá Apple Inc....

María Kristín Gunnarsdóttir, ráðgjafi á vörumerkjasviði, skrifar: 

Vörumerkjaskráningum er hægt að skipta í þrjá flokka – orðmerki, orð- og myndmerki og myndmerki, en undir myndmerki falla merki án nokkurra stafa eða orða. Sem dæmi um myndmerki má nefna eplið frá Apple Inc. sem hefur nokkuð breyst gegnum árin:

 

Myndmerki þurfa að sjálfsögðu að uppfylla hina almennu kröfu vörumerkjalaga um skráningarhæfi, þ.e. að vera „til þess fallið að greina vörur og þjónustu merkis eiganda frá vörum og þjónustu annarra“ og má ekki vera „tákn [...] sem teljast algeng í viðskiptum“ þar sem slíkt tákn „skal ekki telja nægjanlegt sérkenni“1.

Þann 12. maí 2010 lagði Apple Inc. inn vörumerkjaumsókn í Bandaríkjunum fyrir þetta myndmerki:

Um er að ræða útlit búða þeirra, og er umsóknin í flokki 35 fyrir smásöluþjónustu á sviði tölvubúnaðar og raftækja. Umsókninni var hafnað tvisvar sinnum á grundvelli skorts á sérkenni en fékkst loks skráð þann 22. janúar sl.2 og hefur umrædd skráning vakið þó nokkura athygli. Skráningin er byggð á notkun frá árinu 2006 og fylgir henni ítarleg lýsing á útlitinu sem merkið á að vernda3.

Á grundvelli umræddrar bandarískrar umsóknar var svo lögð inn alþjóðleg umsókn4 sem tilnefnir fjölmörg lönd, s.s. ýmis Evrópulönd, Japan og Ástralíu. Langflest tilnefningarlöndin hafa hafnað skráningu merkisins á grundvelli skorts á sérkenni og/eða því að merkið teldist lýsandi fyrir tilgreinda þjónustu umsóknarinnar en merkið var þó samþykkt í Póllandi, Ítalíu og á Spáni. Hafa skal hér í huga að vörumerkjalög landa eru mismunandi en þó eru ákvæði um sérkenni yfirleitt nokkuð sambærileg. Alls óvíst er hvort íslensk skráningaryfirvöld myndu samþykkja umrætt merki til skráningar á Íslandi, en ekki hefur verið sótt um skráningu merkisins hér á landi.

Leiða má líkum að því að einn megintilgangur umræddra skráninga á útliti verslana Apple sé að koma í veg fyrir eftirhermubúðir en slíkar hafa í auknum mæli dúkkað upp á undanförnum árum, einkum í Kína, með tilheyrandi vandkvæðum fyrir Apple og viðskiptavini þeirra. Með vörumerkjaskráningu auðveldast öll framfylgni réttinda í viðkomandi landi, og vörumerkjaskráningar geta verið sterkt vopn gegn eftirhermubúðum og dómsmálum til að stöðva starfsemi þeirra. Einnig ítrekar umrædd vörumerkjaskráning sérstakt útlit verslana Apple og hindrar samkeppnisaðila í að líkja eftir því, þar sem APPLE logo-ið eða nafnið er ekki hluti af vörumerkinu og kemur hvergi fram í lýsingu þess.

Lesendur greinar þessarar hafa væntanlega flestir heimsótt a.m.k. eina Apple búð, og þekkja því hið sérstaka útlit sem einkennir slíkar verslanir.

  

En getur slíkt útlit verslunar talist uppfylla kröfur vörumerkjalaga um sérkenni – eða er verið að víkka út hugtakið vörumerki og hvað telst skráningarhæft sem slíkt? Myndmerkið sýnir frekar einfalda uppröðun borða, ljósa í lofti o.fl. – og er lýsingin í skráningu merkisins einnig að sumu leyti mjög almenn.

Nefna verður hér að Apple eru ekki fyrstir til að fá búðarútlit skráð í Bandaríkjunum, en m.a. hafa Microsoft fengið skráð útlit verslunar, árið 20115. Þekkt er að viss fyrirtæki, s.s. fataverslanakeðjur á borð við Abercrombie & Fitch, noti samræmt útlit, hönnun - og jafnvel lykt - verslana sinna sem hluta af auðkenni sínu. Færa má rök fyrir að neytendur þekki slíkt heildaryfirbragð vissra verslana og tengi það við einn ákveðinn uppruna - og ætti því að teljast sérkennandi og skráningarhæft sem vörumerki.

Á hinn bóginn er ljóst að vörumerki mega ekki vera svo almenn að þau hindri aðra á sama sviði í sínum viðskiptum og spurning er hvort umrætt búðarútlit uppfylli kröfu íslenskra vörumerkjalaga um að vera ekki tákn sem „sýnir eingöngu lögun sem leiðir af eiginleikum vöru, lögun sem er nauðsynleg vegna tæknilegs hlutverks vöru eða sem miðar annars að öðru en því að auðkenna hana.“6 Sitt sýnist hér hverjum og verður fróðlegt að fylgjast með frekari þróun á hvers lags vörumerki teljast uppfylla skráningarkröfur varðandi sérkenni og mögulega útvíkkun hugtaksins.

 

1 1. mgr. 13. gr. vörumerkjalaga nr 45/1997

2 Bandarísk skráning nr 4277914

3 The mark consists of the design and layout of a retail store. The store features a clear glass storefront surrounded by a paneled facade consisting of large, rectangular horizontal panels over the top of the glass front, and two narrower panels stacked on either side of the storefront. Within the store, rectangular recessed lighting units traverse the length of the store's ceiling. There are cantilevered shelves below recessed display spaces along the side walls, and rectangular tables arranged in a line in the middle of the store parallel to the walls and extending from the storefront to the back of the store. There is multi-tiered shelving along the side walls, and a oblong table with stools located at the back of the store, set below video screens flush mounted on the back wall. The walls, floors, lighting, and other fixtures appear in dotted lines and are not claimed as individual features of the mark; however, the placement of the various items are considered to be part of the overall mark.

4 Alþjóðleg skráning nr 1060320

5 Bandarísk skráning nr 4036534

6 2. mgr. 2. gr. vörumerkjalaga nr 45/1997

 

Meira
16. mar. 2016

Vörumerkjaþjófnaður?

Ragnheiður Pétursdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi á vörumerkjasviði, skrifar:

 

Í seinustu breytingum á vörumerkjalögum var ein helsta breytingin sú að við 1. mgr. 14. gr. laganna var bætt við nýjum tölulið, þ.e. 9. tl., og kveður hann á um eftirfarandi:

 

Vörumerki má ekki...

Ragnheiður Pétursdóttir, lögfræðingur og ráðgjafi á vörumerkjasviði, skrifar:

 

Í seinustu breytingum á vörumerkjalögum var ein helsta breytingin sú að við 1. mgr. 14. gr. laganna var bætt við nýjum tölulið, þ.e. 9. tl., og kveður hann á um eftirfarandi:

 

Vörumerki má ekki skrá ef villast má á merkinu og merki sem hefur verið í notkun í öðru landi, á þeim tíma er umsókn var lögð inn eða frá forgangsréttardegi, og er enn notað þar fyrir sömu eða líkar vörur/þjónustu og yngra merkið óskast skráð fyrir og umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið.

 

Innihald ákvæðisins er ekki nýtt af nálinni þar sem sambærilegt ákvæði var að finna í gömlu vörumerkjalögunum nr. 43/1903 en með lögum nr. 45/1997 var það fellt brott. Ástæðan fyrir því hvers vegna ákvæðið var numið brott er óljós en getgátur hafa verið um að það hafi hreinlega verið gert fyrir mistök. Frá árinu 1997 til ársins 2012 var ákvæðið því ekki að finna í íslenskum rétti.

Sé orðalag ákvæðisins skoðað þá mætti ætla að það eitt að umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið verði fullnægjandi til þess að unnt væri að hafna skráningu verndar hér á landi. Segjum sem svo að íslenskur aðili ætli sér að framleiða og markaðssetja vöru hér á landi undir ákveðnu vörumerki. Hann veit að það er til eins eða sambærilegt vörumerki sem er í notkun erlendis - hann sá kannski eitthvað um það á internetinu - en hann skráir merkið í góðri trú og ætlar sér að nota það hér á landi fyrir vöru sína, án þess að ætla sér að nýta sér viðskiptavild eða orðspor hins erlenda vörumerkis. Getur þá erlendi aðilinn andmælt skráningunni á þeim grundvelli að umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið? Er verið að gera óraunhæfar kröfur til þeirra sem ætla sér að sækja um skráningu vörumerkis hér á landi?

Við höfum engin nýleg fordæmi hér á landi um hvernig ákvæðið er túlkað, en við höfum skoðað hvernig það var túlkað í tíð eldri laganna og hvernig sambærileg ákvæði hafa verið túlkuð erlendis. Af þeirri túlkun má sjá að gerð er krafa til þess að umsækjandi hafi verið í vondri trú þegar umsóknin var lögð inn og við mat á því hvort að um vonda trú hafi verið þurfi að líta til allra aðstæðna. Þar sem ákvæði 9. tl. er undantekning frá þeirri meginreglu að vörumerkjarétturinn sé landsbundinn þá hefur framkvæmdin sýnt að fara þarf mjög varlega í öll frávik frá þeirri meginreglu.

Evrópudómstóllinn hefur í hinu svokallaða Lindt máli (mál C-529/07) slegið því föstu að sú staðreynd ein að umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið sé í sjálfu sér ekki fullnægjandi til að sýna fram á vonda trú umsækjanda, heldur þurfi að líta til allra að stæðna við slíkt mat. Þessi túlkun dómstólsins er í samræmi við hvernig ákvæðið var túlkað í tíð eldri vörumerkjalaga sem og hvernig sambærilegt ákvæði hefur verið túlkað í Danmörku. Þá hefur dómstóllinn sett fram ákveðin viðmið við mat á því hvort að um vonda trú umsækjanda hafi verið að ræða.

Verður þannig meðal annars að líta til þess hver var tilgangurinn með skráningunni, þ.e. hvort umsækjandi hafi lagt inn umsókn um skráningu vörumerkis aðeins til þess að koma í veg fyrir að eigandi erlenda merkisins skráði það sjálfur eða hvort tilgangurinn hafi verið sá eini að hagnast á vildskipvild annars aðila og orðspori hins erlenda vörumerkis. Þá getur einnig skipt máli við matið hversu víðtæka vernd erlenda merkið nýtur í öðrum löndum, hversu lengi það hefur verið í notkun o.s.frv.

Sönnunarbyrðin um að umsækjandi hafi verið í vondri trú hvílir á þeim sem heldur slíkri staðhæfingu fram. Samkvæmt lögskýringargögnum þá þarf að sanna slíkt með óyggjandi hætti.

Af þessu er ljóst að þegar nánar er að gáð að það þurfi hreinlega að vera um „vörumerkjaþjófnað“ að ræða til þess að unnt sé að beita ákvæðinu. Líkt og komið var inn á hér fyrr þá er meginreglan sú að vörumerkjarétturinn er landsbundinn og að frávikum frá þeirri mikilvægu meginreglu ber að beita mjög varlega. Umsækjandi þarf að vera í vondri trú og ekki má líta fram hjá því skilyrði að jafnframt þarf merki umsækjanda að vera til þess fallið að villst verði á því og erlenda merkinu. Í þessu felst krafa um að meirihluti viðkomandi markhóps þekki til hins erlenda merkis þannig að merki umsækjanda myndi ákveðin tengsl með aðilum í huga markhópsins. Ljóst er að tíminn einn á eftir að leiða í ljós hvernig ákvæðið mun koma til með að verða túlkað hér á landi.

 

Meira
03. feb. 2016

Kaup á eftirlíkingum – glæpur án afleiðinga?

María Kristín Gunnarsdóttir, ráðgjafi á vörumerkjasviði:

 

Framleiðsla og sala á eftirlíkingum og fölsuðum vörum er á meðal helstu áhyggjuefna á sviði hugverkaréttar í dag og hefur margvísleg áhrif á þjóðir heims, bæði efnahagsleg og samfélagsleg. Rannsóknir hafa hins vegar síendurtekið bent...

María Kristín Gunnarsdóttir, ráðgjafi á vörumerkjasviði:

 

Framleiðsla og sala á eftirlíkingum og fölsuðum vörum er á meðal helstu áhyggjuefna á sviði hugverkaréttar í dag og hefur margvísleg áhrif á þjóðir heims, bæði efnahagsleg og samfélagsleg. Rannsóknir hafa hins vegar síendurtekið bent til þess að almenningur hvorki geri sér grein fyrir alvarleika málsins né sjái neitt athugavert við kaup á slíkum vörum, hvort sem kaupin fara fram á heimaslóðum eða á ferðalögum. Neytendum hætti þannig til að hugsa á þann veg að kaup á falsvarningi skaði engan, stóru fyrirtækin græði nóg samt og allt sé það dýrt að skynsamlegt og hagkvæmt sé að kaupa eftirlíkingar.

 

Málið er hins vegar alls ekki svona einfalt og verður hér farið yfir þær helstu afleiðingar og áhrif sem kaup á slíkum falsvarningi getur haft – ekki bara á afkomu ríkja og fyrirtækja, heldur líka á okkur og börnin okkar.

Víðtæk efnahagsleg áhrif

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) mat efnahagsleg áhrif alþjóðlegra viðskipta með eftirlíkingar og sjóræningjaframleiðslu á alþjóðavettvangi árið 2007 á 30 billjónir íslenskra króna. Það eru 30.000.000.000.000. Þess má geta að talan inniheldur ekki ólöglegt niðurhal gegnum internetið heldur einungis dreifingu og sölu varnings yfir landamæri.

Sala þessa varnings hefur gríðarleg áhrif á hagkerfi landa þar sem engir skattar eða gjöld eru greidd af starfseminni. Framleiðslufyrirtæki verða fyrir umfangsmiklu tjóni vegna vegna minni sölu ásamt því sem falsvarningur getur orsakað slæma ímynd ekta vörunnar þegar neytendur gera sér ekki grein fyrir að um eftirlíkingu sé að ræða. Fyrirtækin eru svo jafnvel tregari við að leggja út í kostnað við rannsóknir og þróun þar sem vara þeirra er jafnóðum fölsuð. Þannig tapast störf og dregið er úr 

nýsköpun sem er einn af grundvallarþáttum vaxtar hagkerfa. Mikil útbreiðsla eftirlíkinga getur líka haft þau áhrif að neytendur vilji ekki lengur kaupa ófölsuðu vöruna þar sem aðrir muni jafnvel gera ráð fyrir að varan sé fölsuð.

Að lokum geta neytendur sjálfir orðið fyrir beinum efnahagslegum áhrifum af kaupunum ef varan er t.d. mjög léleg og gengur úr sér við fyrstu notkun. Eðli málsins samkvæmt er þá sjaldnast hægt að skila eða skipta, standist þær ekki kröfur neytandans um gæði eða virkni.

 

Samfélagsleg áhrif – á heilsu og öryggi okkar?

Framleiðsla eftirlíkinga er að jafnaði hvorki undir eftirliti né háð neinum öryggis- eða gæðastöðlum. Því er ekkert vitað um innihald, framleiðsluferli eða geymsluaðferðir þessara vara. Þegar litið er til falsvarnings eins og lyfja, leikfanga, raftækja, matvæla og drykkja vakna eðlilega áhyggjur af áhrifum slíks varnings á heilsu og öryggi almennings.

Dæmi eru þekkt um verulega alvarlegar afleiðingar slíkra vara á neytendur, þar sem sýra hefur lekið úr rafhlöðum, tannkrem hafa innihaldið eiturefni og blýmálning notuð á leikföng. 

Mörg mál þar sem fólk hefur slasast verulega eða jafnvel látist hafa einnig komið upp í tengslum við fölsuð matvæli eða drykkjarföng, þá helst áfenga drykki. Einnig geta falsaðir íhlutir í bifreiðar og flugvélar haft gríðarlega alvarleg áhrif en þessi markaður hefur vaxið í hlutfalli við aukningu á rafknúnum farartækjum um allan heim.

Fölsuð lyf eru svo þær vörur sem hvað alvarlegustu áhrifin geta haft en sala þeirra hefur aukist verulega með aukinni útbreiðslu internetsins. Fölsuð lyf geta innihaldið rétt virk efni í röngu magni, verið hreinar lyfleysur eða innihaldið stórhættuleg efni sem leiða jafnvel til dauða.

 

Tengsl við skipulagða glæpastarfsemi

Komið hafa í ljós veruleg tengsl milli framleiðslu á eftirlíkingum og annarrar glæpastarfsemi, s.s. fíknaefnisölu, vopnasölu, mansals og peningaþvættis. Árið 2010 fundu Bretar tengsl við aðra glæpsamlega starfsemi í 79% þeirra tilfella sem eftirlíkingar voru gerðar upptækar þar í landi. Ástæðurnar eru margvíslegar; eftirspurn eftir varningnum er mikil, auðvelt er fyrir glæpasamtökin að nota dreifingarleiðir sínar sem þegar eru til staðar og hagnaðarmöguleikar eru miklir.

 

Að lokum

Kaup á eftirlíkingum eru engan veginn glæpur án afleiðinga. Framleiðsla og sala á eftirlíkingum er í örum vexti í heiminum í dag og ein af helstu leiðunum til að draga úr starfseminni er að minnka eftirspurn, þ.e. að upplýsa neytendur um hin víðtæku áhrif og afleiðingar sem kaup þeirra geta haft. Vonandi taka upplýstir neytendur síður meðvitaða ákvörðun um að ýta undir slíka ólöglega starfsemi sem dregur úr nýsköpun og uppbyggingu atvinnulífs, fjármagnar mögulega skipulagða glæpastarfsemi og getur haft veruleg áhrif á heilsu og öryggi þeirra sjálfra.


 

Myndir frá Japemonster.com (Pop Station og King Burger)

 

Meira
01. mai. 2015

Er hugmyndin þín ný eða gömul?

Sigurður Ingvarsson, ráðgjafi á einkaleyfasviði

 

Ég er með hugmynd – á ég að sækja um einkaleyfi?

Til þess að teljast einkaleyfishæf, þá þarf uppfinning að uppfylla þrjú skilyrði. Í fyrsta lagi þarf hugmyndin að vera ný. Það þýðir að þú mátt ekki vera...

Sigurður Ingvarsson, ráðgjafi á einkaleyfasviði

 

Ég er með hugmynd – á ég að sækja um einkaleyfi?

Til þess að teljast einkaleyfishæf, þá þarf uppfinning að uppfylla þrjú skilyrði. Í fyrsta lagi þarf hugmyndin að vera ný. Það þýðir að þú mátt ekki vera búinn að birta hana með einum eða öðrum hætti í fjölmiðlum, sýna hana ótilgreindum aðilum eða aðilum sem ekki eru bundnir trúnaði.

 

Enginn annar má heldur hafa birt upplýsingar um sama hlut eða hugmynd áður en fyrsta einkaleyfisumsókn er lögð inn. Í öðru lagi þarf að vera til staðar uppfinningahæð, en það þýðir að hugmyndin þín má ekki vera augljós lausn á vandamáli þegar tekið er mið af þekktri tækni á þeim tíma sem hugmyndin er lögð fram. Í þriðja lagi er gerð krafa um að hugmyndin sé hagnýtanleg.

En hvernig er best að ganga úr skugga um að enginn annar hafi komið fram með svipaða eða eins hugmynd? Svarið er að framkvæma leit. Eins og fram kom ofar kemur birting á hugmynd eða uppfinningu í veg fyrir nýnæmi, sama á hvaða formi birtingin er. Hér getur verið um að ræða birtingu á ráðstefnu, í tímariti (s.s. vísindatímariti), í fjölmiðlum með markaðssetningu og sölu eða með birtingu á einkaleyfisumsókn. Í flestum tilfellum dugar að leita á veraldarvefnum og svo í einkaleyfagagnagrunnum til þess að fá góða vísbendingu um hvort hugmynd hefur komið fram eða ekki.

Hvernig framkvæmi ég leit?

Best er að hefjast handa með því að gera leit á veraldarvefnum og nota til þess aðgengilegar leitarvélar eins og Google ogYahoo!  Lykilatriði við leit, hvort heldur sem er á netinu eða í einkaleyfagagnagrunnum er að velja rétt og fjölbreytt leitarorð fyrir sama hlutinn og hafa í huga að tungumál geta skipt máli.

Sérstök einkaleyfaleit er ein tegund leitar til þess að finna þekkta tækni á því sviði sem uppfinningin þín er. Slík leit er framkvæmd í sérstökum einkaleyfagagnagrunnum sem ýmist eru opnir öllum eða þarf að kaupa aðgang að. Opnir gagnagrunnar eru t.d. gagnagrunnur Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO), þar sem Espacenet viðmótið hjálpar þér að framkvæma leit. Hægt er að leita með því að nota orð sem eru lýsandi fyrir uppfinninguna, en einnig er hægt að leita eftir umsækjendum og uppfinningamönnum og svo samkvæmt flokkunarkerfi fyrir tæknisvið, sem þó er flóknara og krefst ákveðinnar grunnþekkingar á því kerfi og uppbyggingu þess. Að auki er hægt að framkvæma leit á vef Bandarísku einkaleyfastofunnar (USPTO), þar sem hægt er að framkvæma leit í samskonar flokkum og á Espacenet. Enn annar möguleiki ar að kaupa kaupa aðgang að gagnagrunum eins og Thomson Reuters  og Lexis Nexis, en það er töluvert kostnaðarsamt. Einnig er hægt að fá sérfræðinga á sviði einkaleyfa og sérstök leitarfyrirtæki til þess að sjá um að leita fyrir sig sem þó getur falið í sér töluverðan kostnað.

Hafa ber í huga að það getur verið hjálplegt að leita í gagnagrunnum fyrir birtar vísindagreinar. Slíkir gagnagrunnar geta veitt upplýsingar um uppfinningar og tækni sem ekki hefur verið sótt um einkaleyfi fyrir eða fyrir uppfinningar sem hafa ekki verið birtar sem einkaleyfisumsóknir, en þær eru jafnan birtar 18 mánuðum eftir fyrstu innlögn. Dæmi um gagnagrunna fyrir birtar vísindagreinar eru t.d. ScirusScienDirectPubMed og Ojose.

Niðurstöður einkaleyfaleitar nýtast ekki einungis við ákvörðunartöku um hvort sækja skuli um einkaleyfi, heldur gefur það einnig upplýsingar um það sem kallað er „næstu nærliggjandi tækni“ eða stöðu þekkingar á sviði uppfinningarinnar. Það eru upplýsingar sem eiga að koma fram í einkaleyfaumsókninni. Þar að auki gefa slíkar niðurstöður ábendingar um hverjir eru væntanlegir samkeppnisaðilar eða hugsanlega samstarfsaðilar, en einnig getur slík „patentleit“, eins og það er kallað, gefið mönnum hugmyndir um aðrar útfærslur og áframhaldandi þróun á uppfinningunni.

Leit í einkaleyfagagnagrunnum er hins vegar ekki auðveld og ef þú ert óreynd(ur) er ekki ólíklegt að þú fáir ekki fullnægjandi niðurstöður. Það er því mikilvægt eins og áður hefur komið fram að velja rétt leitarorð og prófa fleiri en eitt og fleiri en tvö orð fyrir þau atriði sem þú ert að leita að. Einnig má hugsa sér að eyða fyrst tíma sjálf(ur) í að gera leit og safna gögnum sem þú telur að liggi nálægt þinni uppfinningu og fara svo til sérfræðings og biðja hann um að halda áfram leit ef þú hefur ekki fundið uppfinninguna „þína“ við leitina. Þannig getur þú lágmarkað kostnað við þennan hluta ferlisins.

 

Meira